Rafrænni fjárhagsaðstoð komið á laggirnar

Gríðarlega stór og mikilvægur áfangi náðist á árinu við innleiðingu rafrænnar fjárhagsaðstoðar. Eftir mikinn undirbúning og vinnu öflugs starfshóps var opnað á rafrænar umsóknir í apríl árið 2019. Umsækjendur um fjárhagsaðstoð hafa tekið þeirri nýjung opnum örmum og tala tölurnar sínu máli: Þegar vefkerfið var opnað sóttu 2,2% umsækjenda um rafrænt en í árslok gerðu það nærri því helmingur umsækjenda.

Kerfið þykir einfalt og notendavænt. Það var einmitt kjarninn í hönnun vefkerfisins en lagt var upp með að fólk fengi greinargóðar upplýsingar um stöðu í umsóknarferlinu og væri vel upplýst um hvert skref. Innleiðing rafrænu umsóknanna var unnin í samræmi við þjónustustefnu Reykjavíkurborgar en í henni felst að þjónustan borgarinnar eigi að verða aðgengilegri og skilvirkari, með rafrænni þjónustu sem spari bæði spor og vinnu. Kraftmikið teymi heldur utan um vinnslu rafrænna umsókna á sviðinu og verkefni þess voru fjölmörg á árinu 2019.

Nýtt samstarfsnet um stuðningsþjónustu

Í mars samþykkti velferðarráð formlega að setja á fót nýrri stuðningsþjónustu fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé var ráðin sem framkvæmdastjóri samstarfsnetsins í maí. Mikill undirbúningur og skipulag fóru fram allt árið 2019 sem endaði síðan með því að Keðjan var formlega opnuð í Þönglabakka í ársbyrjun 2020. Hún veitir aðstoð inn á heimili, til dæmis í formi uppeldisráðgjafar, félagslegs stuðnings til að efla börn og unglinga í leik og starfi, fjölbreytts hópastarfs, námskeiða fyrir foreldra og börn, dvalar hjá stuðningsfjölskyldum, í unglingasmiðjum og í skammtímavistun. 

Með tilkomu Keðjunnar er framkvæmd stuðningsþjónustu veitt frá einum starfsstað í stað fimm áður en aðgengi notenda að þjónustunni verður eftir sem áður í gegnum þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs. Í Keðjunni er lögð áhersla á þróun úrræða og nýsköpun í samstarfi við þjónustumiðstöðvar, Barnavernd, skóla- og frístundasvið og aðra sem veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu. 

Nýtt neyðarskýli við Grandagarð

Neyðarskýli við Grandagarð fyrir allt að fimmtán heimilislausa karlmenn undir þrítugu sem glíma við áfengis- og vímefnavanda var opnað í nóvember. Með tilkomu þess var gert mögulegt að aðgreina hópa yngri og eldri karla sem stríða við heimilisleysi en fyrir eru í Reykjavík neyðarskýlið við Lindargötu og Konukot.

„Við fögnum því að geta bætt þjónustu við unga heimilislausa vímuefnaneytendur,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við opnun skýlisins. Markmið ráðgjafar í nýja neyðarskýlinu er að styðja notendur við að sækja þjónustu og stuðning innan félags- og heilbrigðiskerfisins. Ráðgjafar eru í samstarfi við heilbrigðiskerfið í skimun fyrir smitsjúkdómum og meðferð notenda. 

Betri borg fyrir börn í Breiðholti

Haustið 2019 fór af stað verkefni í Breiðholti sem miðar að því að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Verkefnið miðar að því að færa þjónustu í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna, veita viðeigandi stuðning sem fyrst og þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustumiðstöð hverfisins.

Stofnuð var skóla- og frístundadeild sem starfar innan þjónustumiðstöðvar Breiðholts og fellur nú starfsemi leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila og félagsmiðstöðva í hverfinu undir hana.

Deildin veitir meðal annars ráðgjöf um almenna starfs- og kennsluhætti, skipulag skóla- og frístundastarfs, auk þeirrar sérfræðiþjónustu sem hefur verið veitt í hverfinu á undanförnum árum. 

Reglur um NPA taka gildi

Í marsmánuði varð Reykjavíkurborg fyrst sveitarfélaga til að samþykkja reglur um notendastýrða persónulega aðstoð eða NPA. Borgin setti á laggirnar tilraunaverkefni um NPA árið 2013. Alls fengu nítján einstaklingar samninga um NPA á þeim tíma.

NPA byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og er markmiðið að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks svo að það megi lifa sjálfstæðu og virku lífi og hafi val um hvernig aðstoðinni við það er háttað. Við gerð reglnanna var haft gott samráð við hagsmunaðila; málefnahóp Öryrkjabandalags Íslands um sjálfstætt líf, NPA-miðstöðina, Þroskahjálp og Átak, félag fólks með þroskahömlun. Reglurnar munu áfram mótast af reynslu og mati á því hvernig tekst að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks svo það megi lifa sjálfstæðu og virku lífi.