Skrifstofa velferðarsviðs stofnun ársins
Skrifstofa velferðarsviðs var útnefnd sem stofnun ársins 2019 í flokki stofnana hjá borgum og bæjum með færri en 50 starfsmenn, hjá Sameyki stéttarfélagi í almannaþjónustu. Skrifstofan var einnig hástökkvari ársins 2019. Þetta var tilkynnt við hátíðlega athöfn á Hilton hoteli í maí. Valið byggði á svörum rúmlega 10 þúsund starfsmanna í einni stærstu vinnumarkaðskönnun landsins.
Einstaklingsmeðferð í foreldrafærni sannar gildi sitt
Einstaklingsmeðferð í PMTO foreldrafærni hefur skilað góðum árangri hjá foreldrum og börnum sem Barnavernd Reykjavíkur hefur afskipti af. Þetta sýndi athugun sem gerð var á meðal fjölskyldna sem sóttu slíka meðferð og kynnt var í janúar.
Greining og ráðgjöf heim er úrræði á vegum Mánabergs, sem áður hét Vistheimili barna. Frá nóvember 2017 til ágúst 2019 luku 27 foreldrar meðferð hjá Greiningu og ráðgjöf heim. Í hópnum voru tíu pör og sjö einstæðir foreldrar með samanlagt 38 börn. Allir foreldrarnir sögðust öruggari í uppeldishlutverkinu og að meðferðin hefði komið að frekar eða mjög miklu gagni. Allir fundu þeir jákvæðar breytingar í fari barns síns. Þá sýndu niðurstöður mats- og áhorfslista að dregið hafði úr hegðunarvanda hjá börnunum í 80–86% tilfella á meðferðartímabilinu.
Meirihluti heimilislausra vill búa í sjálfstæðri búsetu
Á fundi velferðarráðs þann 6. febrúar var farið yfir könnun á viðhorfum þeirra sem eru heimilislaus, þurfa búsetu með stuðningi og nýta sér neyðarskýli Reykjavíkurborgar í dag. Tekin voru viðtöl við gesti gistiskýlisins og Konukots. Áttu viðmælendur það flestir sameiginlegt að vilja vita meira um stöðu sína á biðlista og vilja búa í sjálfstæðri búsetu. Í ljós að þau sem bíða eftir sértækum húsnæðisúrræðum virðast bera traust til vettvangs- og ráðgjafateymis borgarinnar.
Á fundinum voru einnig kynnt viðhorf annarra sem eru á lista eftir almennu félagslegu húsnæði og þeirra sem leigja félagslegt húsnæði, bæði almennt og sértækt. Hóparnir eru ólíkir og viðhorfin margvísleg en heilt yfir voru væntingar viðmælenda til húsnæðis fyrst og fremst þær að það þyrfti að vera öruggt og heilnæmt.
Öflugur þekkingardagur velferðarsviðs
Ríflega 400 manns lögðu sitt að mörkum á þekkingardegi velferðarsviðs, ÞekkVel, sem haldinn var í þriðja sinn á Hilton Nordica Reykjavík þriðjudaginn12. febrúar 2019.
Þekkingardagurinn er vettvangur fyrir starfsfólk velferðarsviðs til að efla tengsl sín á milli, kynnast verkefnum og móta stefnu. Með líflegum fyrirlestrum var fjallað um helstu stoðir starfsemi sviðsins; þjónustu, skipulag og samskipti, auk þess að sérfræðingar frá Capacent leiddu vinnustofur þar sem starfsfólk fékk tækifæri til að skerpa á grunngildum velferðarsviðs; virðingu, virkni og velferð.
Verðlaunuð fyrir vel unnin störf
Vel heppnuðum þekkingardegi velferðarsviðs í febrúar lauk með því að hvatningarverðlaun voru veitt bæði hópum og einstaklingum. Markmið þeirra er að vekja athygli á gróskumiklu starfi í velferðarþjónustu borgarinnar. Í flokki hópa og starfsstaða féllu þau í skaut Mánabergs, sem er vistheimili fyrir börn.
Verkefnið TINNA var verðlaunað í flokki verkefna, fyrir að valdefla einstæða unga foreldra sem verið hafa á fjárhagsðstoð. Alda Róbertsdóttir hlaut verðlaun í hópi einstaklinga en hún hefur verið ötul og framsýn í faglegu starfi og þjónustu við fatlað fólk á þjónustumiðstöð Laugardals og Hlíða. Þá hlaut Þóroddur Þórarinsson, ráðgjafi á þjónustumiðstöð Breiðholts, viðurkenningu fyrir farsælt starf á sviði velferðarmála en hann hefur helgað sig starfi með fötluðu fólki í áratugi.
Málin krufin á Velferðarkaffi
Áfram var haldið með morgunfundaröð velferðarráðs undir heitinu Velferðarkaffi . Byrjað var að halda fundina haustið 2018. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, stjórnar fundunum sem jafnan fara fram í félagsmiðstöðvum fullorðins fólks í öllum hverfum borgarinnar.
Alls var boðið upp á Velferðarkaffi fimm sinnum árið 2019. Umfjöllunarefnin voru fjölbreytt, en fjallað var um matarþjónustu og næringu eldri borgara, börn og fátækt, málefni heimilislauss fólks, forvarnir til framtíðar og stöðu fanga eftir að afplánun lýkur. Fundirnir voru jafnan vel sóttir, en auk þess var þeim alltaf streymt á facebook-síðu velferðarsviðs.
Endurbætur á skammtímavistun
Í febrúar lauk viðamiklum endurbótum á húsnæði skammtímavistunar Barnaverndar fyrir fötluð börn og ungmenni að Hólabergi í Breiðholti. Þessu var fagnað með pompi og prakt af starfsfólki og góðum gestum í marsbyrjun.
Endurbæturnar höfðu staðið yfir frá árinu 2017. Skipt var um klæðningu utanhúss, nýtt gólfefni lagt, veggir teknir niður og allt innréttað að nýju. Stærsta breytingin var ný viðbygging sem bætir um 155 m² við fyrra húsnæði og stuðlar án efa að eflingu faglegrar þjónustu og starfsemi.
Velferðarráð veitir styrki
Árlegir styrkir sem velferðarráð veitir hagsmuna- og félagasamtökun voru afhentir við hátíðlega athöfn í Iðnó um miðjan febrúar. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem bæta líðan og hag barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra. Einnig lagði velferðarráð áherslu á verkefni sem stuðla að geðheilbrigði, virkni og hvers konar atvinnu- og samfélagsþátttöku.
Alls bárust 52 umsóknir um styrki. Samþykkt var að veita styrki til 35 verkefna. Veittir voru styrkir fyrir einstök verkefni auk þess að starf félaga- og hagsmunasamtaka var styrkt til eins eða þriggja ára. Alls voru til úthlutunar 87.931.894 milljónir króna.
Áfram unnið að umbótum barnaverndarstarfs
Markmið Reykjavíkurborgar er að vera í fararbroddi í umbótum á barnaverndarstarfi en miklar breytingar hafa verið gerðar á því á undanförnum misserum. Hópur fólks kom saman á vinnustofu á Fosshóteli í apríl, til að fara ofan í saumana á barnaverndarmálum í Reykjavík og opna umræðu um hvað betur má fara. Í hópnum voru starfsfólk og fulltrúar frá ráðum og nefndum frá Reykjavíkurborg og stofnunum ríkisins, auk hagsmunaaðila og þeirra sem notað hafa þjónustu Barnaverndar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fluti opnunarávarp, þar sem hann kallaði meðal annars eftir auknu samstarfi ríkis og borgar, auk þess að Ásmundur Einar Daðason flutti ávarp. Auk þeirra sagði Emilía María Maidland þátttakendum frá reynslu sinni sem fósturbarni og Halldór Þór Svavarsson sagði frá því hvernig er að vera foreldri sem fær þjónustu hjá Barnavernd. Að loknum erindum var unnið að því að fá áþreifanlega hugmyndir og tillögur að aðgerðum í framkvæmdaáætlun í Barnavernd Reykjavíkur.
Markvissar aðgerðir í þágu eldri borgara
Í apríllok var gefin út aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara en hún byggir á nýrri stefnu í málaflokknum sem tók gildi árið 2018. Aðgerðaáætlunin gildir til loka 2022 en í henni er lögð áhersla á fimm atriði: félagsauð, matarþjónustu, sérhæfða aðstoð vegna heilabilunar, sérhæfð teymi um heimaþjónustu og mannauð.
Lífsgæði eldri borgara af öllum kynjum eru í forgrunni og litið til þess að þeim sé gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili. Auka á notendasamráð og upplýsingaflæði til hópsins. Aðgerðirnar miða jafnframt að því að auka virkni og þátttöku, tryggja góða næringu, auka félagslegan stuðning og veita meiri sérhæfða þjónustu í heimahúsi. Þá er stefnt á að fjölga dagdvölum í samvinnu við ríki og auka félagslegan stuðning heima.
Nýjar reglur um félagslegt húsnæði
Í byrjun maí samþykkti borgarráð nýjar reglur um félagslegt leiguhúsnæði en þær tóku gildi 1. júní. Reglurnar ná yfir allt félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík en þær voru unnar í góðu samstarfi við hagsmunasamtök á borð við Öryrkjabandalag Íslands, Þroskahjálp, Geðhjálp, Félag eldri borgara og Öldungaráð Reykjavíkur. Helstu nýmæli eru þau að matsviðmið um félagslegt leiguhúsnæði eru ítarlegri en áður.
Húsnæði fyrir fatlað fólk er skipt í sértækt húsnæði og húsnæði með stuðningi og við úthlutun á þjónustuíbúðum verður megináhersla lögð á þörf fyrir þjónustu og stuðning sem ekki er hægt að veita í núverandi húsnæði. Þá eru húsaleigusamningar fyrir almennt félagslegt leiguhúsnæði nú gerðir fyrst til þriggja ára en voru áður ótímabundnir.
Fjöldi hugmynda um félagsstarf fullorðinna
Snemma sumars hélt velferðarsvið hugmyndasmiðju um þróun félagsstarfs fullorðinna hjá sautján félagsmiðstöðvum velferðarsviðs. Á þriðja tug sjálfboðaliða tóku þar þátt og komu fram ótal hugmyndir um það hvernig eldri borgarar Reykjavíkur gætu notið sín á efri árum. Bar þátttakendum saman um að mikilvægt væri fyrir eldri borgara að hafa tækifæri til að sinna áhugamálum, nú þegar loks gæfist tími til að leggja rækt við þau.
Þátttakendur lýstu meðal annars yfir áhuga á að auka sjálfboðaliðastarf í tengslum við starfsemi borgarinnar. Þá kom fram áhugi á því að stofnaðir yrðu umræðuhópar um stjórnmál, náttúruvernd og umhverfismál. Niðurstöður smiðjunnar voru nýttar í tengslum við heildarstefnumótun um félagsstarf og félagsmiðstöðvar velferðarsviðs.
Nýr íbúðakjarni fyrir konur með fötlun
Í júnílok samþykkti borgarráð kaup á Hringbraut 79 til að þar mætti starfrækja íbúðarkjarna fyrir konur með geðfötlun og fjölþættan vanda. Á staðnum eru sjö íbúðareiningar, sem allar eru með eldhúsinnréttingu og baðherbergi.
Hlutverk kjarnans er að veita konum með tvíþættan vanda aðstoð til að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf innan og utan heimilis, með því að mæta þörfum þeirra á heildstæðan og einstaklingsmiðaðan hátt, með áherslu á sjálfstætt líf og valdeflandi stuðning.
Nýr íbúðakjarni við Móaveg
Um miðjan september var nýr íbúðakjarni fyrir ungt fólk með þroskahömlun opnaður við Móaveg. Þar búa fimm einstaklingar en auk þeirra fá ellefu einstaklingar í Grafarvogi þar þjónustu og stuðning. Markmið þjónustunnar sem veitt er á Móavegi er að styðja fólk til að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf á eigin fosendum.
Bygging kjarnans þótti mikilvægur áfangi í að framfylgja húsnæðisáætlun og sagði Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, við hátíðlega opnun kjarnans að miklar vonir væru bundnar við þá nútímalega þjónustu sem veitt verði í íbúðakjarnanum. Það var Íbúðafélagið Bjarg sem sá um byggingu íbúðakjarnans í samráði við Félagsbústaði og sérfræðinga velferðarsviðs í málefnum fatlaðs fólks.
Tímamótastarf um geðheilsuteymi
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Reykjavíkurborg gerðu um miðjan október með sér samning um þátttöku þjónustumiðstöðva velferðarsviðs í verkefnum geðheilsuteyma heilsugæslunnar í Reykjavík. Markmið samstarfsins er að efla og bæta þjónustu geðheilsuteyma, sem heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins rekur, við notendur.
Með samkomulaginu var sett það markmið að skapa vettvang sem stuðlar að samþættri og samfelldri þjónustu við einstaklinga og aðstandendur sem fá þjónustu hjá geðheilsuteymunum og þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Með samstarfssamningnum mun velferðarsvið Reykjavíkurborgar tryggja til viðbótar framlag félagsráðgjafa í báðum teymum sem nemur 100% starfshlutfalli í hvoru teymi.
Stefna í málefnum heimilislausra
Í október samþykkti borgarráð nýja stefnu velferðarráðs í málefnum heimilislausra, ásamt aðgerðaráætlun til fimm ára. Í stefnunni er lögð áhersla á hugmyndafræðina „húsnæði fyrst“ og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins. Samþykktin kom í kjölfar viðamikillar endurskoðunar á stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Við mótun stefnunnar var haft samráð við notendur, fagfólk og hagsmunaaðila og sameinast um að leggja áherslu á skaðaminnkandi nálgun, auk hugmyndafræðinnar „húsnæði fyrst“ en í henni felst að húsnæði er grunnþörf og aðeins þegar þeirri grunnþörf er mætt geti einstaklingur ráðið við aðrar áskoranir í lífi sínu.
Íslenskuverkefni vinnur til verðlauna
Verkefnið Stígum saman í áttina að öflugra samfélagi hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts hlaut í október viðurkenninguna European Language Label á Íslandi árið 2019. Verkefnið miðar að því að bæta íslenskukunnáttu kvenna af erlendum uppruna á vinnustöðum og bjóða upp á starfstengt íslenskunámskeið. Einnig að efla þekkingu þeirra og færni í starfi, fræða um réttindi og skyldur og vinna með sjálfstyrkingu og frumkvæði.
Verkefnið hefur sýnt fram á að nemendur töluðu meiri íslensku að námskeiði loknu, fengu meira sjálfsöryggi og voru reiðubúnari til að takast á við meiri ábyrgð á sínum vinnustað.